Njála

NJÁLA 2015-2017

Sumarið 2015 leitaði Árni Heiðar Karlsson, kórstjóri og tónlistarstjóri í Borgarleikhúsinu, til Karlakórs Kópavogs um að taka þátt í uppfærslu Borgarleikhússins á Njálu í leikstjórn Þorleifs Arnarssonar. Kórinn taldi það geta fallið að sínum verkum og samþykkti þátttöku.

Vissulega er það þannig í svona verkum, sem taka talsverðan tíma umfram það sem alla jafna fer í hefðbundið kórstarf, að ekki geta allir tekið þátt. Þrátt fyrir það þá voru það 48 kórfélagar sem skráðu sig til verksins og aldrei hafa verið færri en 38 kórfélagar á sýningu. Upphaflega stóð til að tvískipta hópnum en kórfélagar sýndu, það sem Garðar Cortes kallar félagslegan þroska, og mættu á allar sýningar sem þeir mögulega gátu. Mörg dæmi voru um að menn "skruppu" aðeins frá á árshátíðum og í matarboðum og tróðu upp í Borgarleikhúsinu áður en þeir sneru aftur til veislunnar.

Frumsýning verksins var 30. desember 2015 en áður var bæði generalprufa og forsýning. Síðasta sýning var í ársbyrjun 2017 og var þá búið að sýna verkið yfir 50 sinnum þegar forsýning og generalprufa er taldar með.

Njála