Samþykktir Karlakórs Kópavogs
1. gr. Heiti kórs og varnarþing
Kórinn heitir Karlakór Kópavogs. Heimilisfang Karlakórs Kópavogs er hjá starfandi formanni kórsins á hverjum tíma. Varnarþing kórsins er í Kópavogi.
2. gr. Markmið og eðli kórsins
Eingöngu er um áhugamannafélag að ræða, sem ekki mun stunda neina fjármálastarfsemi. Tilgangur kórsins er að styrkja og efla sönglíf.
3. gr. Aðild að kórnum og kórgjöld
Kórfélagar eru allir þeir karlar sem stunda æfingar með kórnum, hafa hlotið samþykki kórstjóra og eru í skilum með kórgjöld. Þátttökugjöld kórsins, kórgjöld, fyrir hvert starfsár ákvarðast á aðalfundi hans.
4. gr. Styrktarfélagar og heiðursfélagar
Styrktarfélagar eru þeir sem greiða árlegt gjald til styrktar starfsemi kórsins. Styrktarfélagar fá frímiða á tónleika kórsins í samræmi við umfang styrks. Stjórn kórsins er heimilt að tilnefna heiðursfélaga og skal sú tilnefning borin undir aðalfund.
5. gr. Aðalfundur
Aðalfundur fer með æðsta vald í kórnum. Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. mars ár hvert. Stjórn kórsins skal boða til aðalfundar með tölvupósti eða öðrum óyggjandi hætti með a.m.k. 10 daga fyrirvara. Í fundarboði skal greint frá fundarstað, fundartíma og dagskrá. Þá skal geta efnis tillagna þeirra sem leggja á fyrir fundinn og einnig skulu lagabreytingartillögur sem fram hafa komið fylgja fundarboði. Aðalfundur telst lögmætur hafi löglega verið til hans boðað. Framhaldsaðalfund skal halda, ef ekki reynist unnt að ljúka störfum aðalfundar svo sem samþykktir mæla fyrir um. Fundinn skal halda innan tveggja vikna frá frestun og boðað til hans með a.m.k. viku fyrirvara með tölvupósti eða öðrum óyggjandi hætti.
6. gr. Dagskrá aðalfundar
Dagskrá aðalfundar skal sett upp með neðangreindum hætti:
Fundarsetning (formaður)
Skipun fundarstjóra og fundarritara
Formaður flytur skýrslu stjórnar um störf kórsins fyrir síðasta almanaksár
Gjaldkeri skýrir og leggur fram til samþykktar endurskoðaða reikninga fyrir síðasta almanaksár
Ákvörðun kórgjalda
Kosning formanns, stjórnar og varastjórnar kórsins
Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
Breytingar á samþykktum, sbr. 7. gr.
Önnur mál
Fundarslit
7. gr. Breytingar á samþykktum
Samþykktum kórsins verður aðeins breytt á aðalfundi. Tillögur til breytinga á samþykktum skulu hafa borist stjórn kórsins eigi síðar en 3 vikum fyrir aðalfund og skulu þær birtar á sama hátt og aðalfundarboðið. Til breytinga á samþykktum kórsins þarf samþykki 2/3 fundarmanna. Nú er lögð fram tillaga til breytinga á samþykktum á aðalfundi, sem er of seint fram komin. Má þá aðeins taka hana til umræðu og afgreiðslu að áður hafi verið leitað afbrigða varðandi hana og 2/3 hlutar fundarmanna samþykkt þau.
8. gr. Félagsfundir
Allir kórfélagar skv. 3. gr. hafa málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt á félagsfundum, þar með talið aðalfundi. Tillögur félagsfunda skoðast samþykktar hljóti þær meirihluta greiddra atkvæða.
Félagsfundi skal halda eftir þörfum. Kórstjórn er skylt að boða til félagsfundar óski amk 1/5 hluti kórfélaga þess skriflega og geti tilefnis. Almennir félagsfundir skulu boðaðir með a.m.k. viku fyrirvara með tölvupósti eða öðrum óyggjandi hætti. Félagsfundur er löglegur sé löglega til hans boðað. Allar stærri ákvarðanir sem varða kórstarfið skal bera undir kórinn í atkvæðagreiðslu á félagsfundi.
9. gr. Stjórn, kjörgengi stjórnarmanna og kjörtími
Stjórn kórsins skipa fimm karlar, formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi. Auk þess eru tveir varamenn. Allir fullgildir kórfélagar sbr. 3. gr. eru kjörgengir. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára og eftir það má endurkjósa hann til eins árs í senn. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára. Stjórn skiptir með sér verkum að kosningu lokinni. Aldrei skulu fleiri en tveir stjórnarmenn, auk formanns, láta af störfum samtímis. Enginn stjórnarmaður skal sitja lengur samfellt í stjórn en 4 ár. Þá skal kjósa fyrsta og annan varamann í stjórn til eins árs. Varamenn í stjórn eiga rétt til setu á fundum stjórnar með tillögurétti og málfrelsi en ekki atkvæðisrétti nema þeir sitji fund í forföllum stjórnarmanns. Kosning stjórnar skal vera leynileg. Formann skal kjósa fyrst og sérstaklega, en aðra stjórnarmenn í einu lagi og síðan varamenn í stjórn hvorn fyrir sig.
10. gr. Verkaskipting stjórnar
Formaður skal vera fulltrúi kórsins út á við. Honum ber að hafa frumkvæði um daglega stjórn og verkaskiptingu innan stjórnar og jafnframt fylgjast með störfum annarra trúnaðarmanna félagsins. Varaformaður gegnir formannsstörfum í fjarveru formanns. Gjaldkeri annast allar fjárreiður kórsins, innheimtu og daglegan rekstur og er prókúruhafi. Hann skal leggja fram endurskoðaða reikninga á aðalfundi kórsins. Hann skal sjá til þess að peningasjóðir kórsins séu geymdir og ávaxtaðir á öruggan hátt. Ritari heldur gjörðabók kórs og stjórnar, annast félagatal og hefur á hendi varðveislu á skjölum kórsins.
11. gr. Starfssvið stjórnar
Stjórnin fer með stjórn kórsins milli aðalfunda. Hún tekur ákvarðanir um kórstarfið og ræður kórstjóra og gerir starfssamning við hann og þá samstarfsmenn sem hann velur sér í samráði við stjórn. Stjórn hefur samráð við kórstjóra um þau mál er að söngstarfi lúta. Stjórn sér um að tilnefna raddformenn, siðameistara og nótnavörð og skipa menn í nefndir eftir þörfum. Formaður og gjaldkeri skuldbinda félagið að fengnu samþykki stjórnar.
12. gr. Stjórnarfundir
Formaður boðar til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Stjórnarfundur er löglegur þegar a.m.k. þrír stjórnarmenn eru samankomnir, þeirra á meðal formaður eða þá varaformaður í forföllum formanns. Stjórnarfund er skylt að halda ef tveir aðalstjórnarmenn krefjast þess skriflega og skal hann þá haldinn innan viku frá því að beiðni er lögð fram og er hann þá löglegur þótt formaður eða varaformaður séu ekki til staðar.
13. gr. Kórstjóri
Kórstjóri sér um alla faglega þjálfun kórsins en ræður undirleikara og aukaþjálfara í samráði við stjórn. Kórstjóri sér um að raddprófa þá sem vilja ganga í kórinn. Innganga í kórinn er á ábyrgð kórstjóra og stjórnar. Stjórnandi og stjórn kórsins skulu á hverju hausti leggja fram áætlun um starfsemi vetrarins í stórum dráttum.
14. gr. Slit kórsins
Kórslit verða eigi ákveðin nema á sérstökum félagsslitafundi. Sérhverjum kórfélaga skal sent fundarboð þar sem tilefni fundarins er tilgreint. Félagsslitafundur er því aðeins lögmætur að 2/3 fullgildra kórfélaga sæki fundinn. Félagsskap kórsins verður því aðeins slitið að 2/3 þeirra kórfélaga sem mættir eru á félagsslitafund samþykki það í leynilegri atkvæðagreiðslu. Verði félagsslitafundur eigi lögmætur skal boðað til hans á ný á sama hátt en með viku fyrirvara og telst hann þá lögmætur óháð fundarsókn. Ef samþykkt er að slíta félaginu ber að fresta félagsslitafundi en kjósa þrjá kórfélaga í skilanefnd er jafnframt skal skipuð formanni kórsins og gjaldkera. Skilanefnd ber að kalla inn allar skuldir kórsins, selja eignir hans til lúkningar skuldum og gera tillögur um ráðstöfun eigna umfram skuldir. Tillögur skilanefndar skulu bornar undir framhaldsfélagsslitafund sem boðaður skal að nýju innan árs frá frestun og á sama hátt og gert var fyrir frestun. Til samþykktar frumvarps skilanefndar og endanlegra félagsslita þarf samþykki 2/3 fullgildra kórfélaga sem til fundarins mæta.
15. gr. Gildistími.
Samþykktir þessar öðlast þegar gildi og eru eldri reglur úr gildi fallnar.
Samþykkt á aðalfundi Karlakórs Kópavogs 23. febrúar 2017.